Hvers vegna Náttúruhlaup?

Hlaup í náttúru Íslands verða sífellt vinsælli, það ætti ekki að koma á óvart. Íslendingar hafa löngu uppgötvað frelsið og fegurðina sem felst í fjallgöngum. Síðustu 15 ár hafa götuhlaup einnig rutt sér til rúms á meðal almennings. Með því að sameina hlaupin og útiveru í náttúrunni fæst það besta úr báðum heimum. Þessa upplifun köllum við náttúruhlaup.

Náttúruhlaup er spennandi, nýr valkostur fyrir skokkara og langhlaupara þar sem valdar eru náttúrulegar hlaupaleiðir utan gatnakerfisins. Hlaupið er á manngerðum stígum, kindaslóðum eða yfir móa, tún, fjöll og mela, hvert sem leið liggur um íslenska náttúru. Náttúruhlaup kallar á annan búnað og öðruvísi hugsunarhátt en hefðbundið götuhlaup.

„Náttúruhlaup voru uppgötvun ársins 2016. Sem kom mjög á óvart því hlaup voru alls ekki á þjálfunarplaninu það árið. Bara alls ekki. Tilviljun og ákvörðun á síðustu stundu réð því að ég með hálfum huga skráði mig á haustnámskeið, taldi líklegt að úthaldið yrði jafn arfaslakt eins og við fyrri hlaupatilraunir og þessu brölti yrði sjálfhætt með hraði. En viti menn, strax á fyrstu æfingu varð mér ljóst að hlaup úti á víðavangi með andvara í andlitið, mjúkt undir fæti og angan af náttúrunni í vitunum var eitthvað annað en venjulegt skokk. Þetta var alvöru skemmtilegt.

Thelma L Thomasson

Það er þó engin launung að til að byrja með voru hlaupin erfið. Ég átti mjög bágt, hélt ekki út í 60 sekúndur, hagræddi tímatökunni þannig að hlaupa-kaflarnir voru styttri og göngukaflarnir lengri en þjálfunarplanið gaf upp. Leit skömmustulega í kringum mig til að athuga hvort einhver væri að fylgjast með hjákátlegum svindltilraunum. Fyrr en varði snerist þetta þó við, hlaupa-kaflarnir urðu smám saman lengri og göngulotur styttri.

Eftir 8 vikna námskeið var ég fær um að hlaupa 12 kílómetra í einni lotu, sem mér fundust vera miklar framfarir á svo stuttum tíma. Ég þakka það frábærri uppbyggingu námskeiðsins og stuðningi frá Gunni, Birki Má og Elísabetu, sem eru í senn fagleg, hvetjandi og skemmtileg. Móttóið mitt er: ef hinir geta það, þá get ég það líka. Og ef ég get það, geta aðrir það líka. Náttúruhlaup eru tær snilld.“

Telma L. Tómasson
Sjónvarpsfréttakona

Náttúruhlaup er einstök aðferð til að sameina mikla hreyfingu, útivist og náttúruupplifun og gefur um leið tækifæri til að sjá landið á nýjan hátt. Erlendis nýtur náttúruhlaup (e. trail running) sífellt aukinna vinsælda og hérlendis búa menn sig undir sprengingu þegar landinn uppgötvar kostina við þetta frábæra hlaupasport.

„Ég hefði ekki getað trúað því að ég myndi hlakka til að vakna snemma á laugardagsmorgni til að fara út í hvaða veður sem er en það var allaf yndislegt. Gaman að vera búin að kynnast öllum þessum skemmilegu hlaupaleiðum og frábært að þurfa ekki að leita langt útfyrir borgina til að komast í snertingu við náttúruna :)“

Hildur Þóra

Kostir náttúruhlaups

 • Allir kostir þess að skokka og hreyfa þig
 • Hreint og tært loft, enginn útblástur, ekkert svifryk
 • Hægt að njóta náttúru og landslags um leið og hlaupið er
 • Aukin fjölbreytni í hlaupaleiðum
 • Áfangastaðirnir verða markmið í sjálfu sér, ekki bara bið eftir næsta hlaupi
 • Reynir á fleiri þætti fótaburðar og úthalds
 • Mýkra undirlag reynir minna á liði en hörð gata eða gangstétt
 • Engir bílar, ekkert malbik, engin steypa
 • Friðsæl náttúran eflir andann jafnt og líkamann

Andleg áhrif náttúruhlaups

Það er ekki að ástæðulausu að hlaup er vinsæl leið til að hreyfa sig. Auk líkamlegra ávinninga, geta hlaupin haft einstaklega góð áhrif á andann. Margir gleyma sér í upplifuninni, ná að slaka á og hugsa skýrt. Þannig hafa ófáar hugmyndir og lausnir við vandarmálum kviknað á hlaupum. Fólk snýr aftur, endurnært á líkama og sál, tilbúið til að takast á við lífið með nýjum eldmóð. Ekki þekkja allir þó þessi jákvæðu áhrif. Sumir pína sig til að hlaupa og eru fegnastir þegar því er lokið. Malbik, bílaumferð og mengun ýta síður en svo undir hugleiðslu áhrif hlaups. Hvað þá að hlaupa á bretti í líkamsræktarstöð og glápa á tónlistarmyndbönd. En að hlaupa í náttúrunni kallar fram þessi áhrif eins og ekkert annað. Enda eru hljóð úr náttúrunni notuð óspart til að skapa andrúmsloft slökunnar og hugleiðslu.

Hlaupið verður ævintýri líkast

Það er fátt skemmtilegra en að kanna og uppgötva nýjar leiðir í náttúrunni. Það er gaman að leyfa forvitninni að leiða sig áfram, fara út af leið til þess að kanna hvert einhver slóði liggur. Stundum uppgötvar maður óvænt fallegan foss eða huggulega laut. Þá er upplagt að stoppa í smá stund, fá sér vatnssopa og jafnvel narta í eitthvað á meðan maður nýtur þessarar óvæntu náttúruperlu.

Náttúruhlauparar ná að skanna stærra svæði en fótgangadi fólk og sjá fegurð í náttúrunni sem aðrir missa af. Auðvelt er að gleyma sér á hlaupunum í svona ævintýri og áður en maður veit af er maður gjarnan búinn að hlaupa lengri veglengd en maður taldi sig ráða við og á erfitt með að trúa að maður hafi verið í burtu svo lengi.

Nokkur ráð fyrir náttúruhlaupara

 • Hafðu augun á slóðinni. Á malbiki hreyfast fætur nánast eins í hverju skrefi en í náttúruhlaupi getur maður alltaf átt von á trjárót, steinhnullungi, óvæntri hækkun eða lækkun eða krappri beygju. Auðvelt er að reka fótinn í og detta ef athyglin er ekki á réttum stað, sérstaklega þegar þreytan sækir að.
 • Hafðu gott bil á milli þín og hlauparans á undan. Hér gilda önnur lögmál en á malbiki! Gott er að hafa um 3-5 metra á milli manna. Þannig sérð þú alltaf hvað leynist á slóðinni og getur brugðist við grjótum og öðru slíku. Ef manneskjan á undan þér hrasar, sleppur þú við áreksturinn.
 • Ekki slá metið þitt. Í náttúrunni gilda önnur lögmál varðandi tímatöku en á malbiki. Vegna þess hversu fjölbreyttar og mis erfiðar yfirferðar leiðirnar eru, er óraunhæft að bera tíma þína saman við sömu vegalengdir í götuhlaupum. Það er ekki einu sinni hægt að bera mismunandi utanvega leiðir saman því að þó vegalendin sé hin sama, kann erfiðleikastigið að vera allt annað.
 • Gakktu upp í móti! Í bröttum brekkum er engin skömm að því að ganga. Þvert á móti gera allir það á einhverjum tímapunkti í fjallahlaupum og margir hafa þá reglu að ganga upp allt sem er upp á móti. Með því að ganga rösklega upp, nota þú vöðvana öðruvísi og því er þetta viss hvíld. Þar að auki eru góðar líkur á að þú farir jafn hratt og jafnvel hraðar heldur en að þrjóskast við að hlaupa upp brattann.
 • Njóttu upplifunarinnar! Ekkert jafnast á við að hlaupa í náttúrunni. Ekki missa af upplifuninni heldur vertu til staðar og njóttu þess! Hlustaðu á fuglasönginn, njóttu útsýnisins, andaðu að þér ferska loftinu og finndu gleðina í því að þræða stígana og finna ný ævintýri í stað þess að þramma á hörðu malbikinu. Heyrnartólin eru nauðsynleg ef þú hleypur á hlaupabretti en þeirra gerist ekki þörf í náttúrunni.