Náttúruveitan
Náttúruhlaup
Hlaup í náttúru Íslands (utanvegahlaup) verða sífellt vinsælli, það ætti ekki að koma á óvart. Íslendingar hafa löngu uppgötvað frelsið og fegurðina sem felst í fjallgöngum. Síðustu 15 ár hafa götuhlaup einnig rutt sér til rúms á meðal almennings. Með því að sameina hlaupin og útiveru í náttúrunni fæst það besta úr báðum heimum. Þessa upplifun köllum við náttúruhlaup.
Spennandi valkostur
Náttúruhlaup er spennandi, nýr valkostur fyrir skokkara og langhlaupara þar sem valdar eru náttúrulegar hlaupaleiðir utan gatnakerfisins. Hlaupið er á manngerðum stígum, kindaslóðum eða yfir móa, tún, fjöll og mela, hvert sem leið liggur um íslenska náttúru. Náttúruhlaup kallar á annan búnað og öðruvísi hugsunarhátt en hefðbundið götuhlaup. Komdu með okkur að kanna nýjar hlaupaleiðir.
Um náttúruhlaup
Andleg áhrif náttúruhlaups
Það er ekki að ástæðulausu að hlaup er vinsæl leið til að hreyfa sig. Auk líkamlegra ávinninga, geta hlaupin haft einstaklega góð áhrif á andann. Margir gleyma sér í upplifuninni, ná að slaka á og hugsa skýrt.
Hlaupið verður ævintýri
Það er fátt skemmtilegra en að kanna og uppgötva nýjar leiðir í náttúrunni. Það er gaman að leyfa forvitninni að leiða sig áfram, fara út af leið til þess að kanna hvert einhver slóði liggur.
Góð hreyfing
Náttúruhlaup er einstök aðferð til að sameina mikla hreyfingu, útivist og náttúruupplifun og gefur um leið tækifæri til að sjá landið á nýjan hátt. Erlendis nýtur náttúruhlaup (e. trail running) sífellt aukinna vinsælda.