Hlaup í náttúru Íslands verða sífellt vinsælli, það ætti ekki að koma á óvart. Íslendingar hafa löngu uppgötvað frelsið og fegurðina sem felst í fjallgöngum. Síðustu 15 ár hafa götuhlaup einnig rutt sér til rúms á meðal almennings. Með því að sameina hlaupin og útiveru í náttúrunni fæst það besta úr báðum heimum. Þessa upplifun köllum við náttúruhlaup.

Náttúruhlaup er spennandi, nýr valkostur fyrir skokkara og langhlaupara þar sem valdar eru náttúrulegar hlaupaleiðir utan gatnakerfisins. Hlaupið er á manngerðum stígum, kindaslóðum eða yfir móa, tún, fjöll og mela, hvert sem leið liggur um íslenska náttúru. Náttúruhlaup kallar á annan búnað og öðruvísi hugsunarhátt en hefðbundið götuhlaup.

Náttúruhlaup er einstök aðferð til að sameina mikla hreyfingu, útivist og náttúruupplifun og gefur um leið tækifæri til að sjá landið á nýjan hátt. Erlendis nýtur náttúruhlaup (e. trail running) sífellt aukinna vinsælda og hérlendis búa menn sig undir sprengingu þegar landinn uppgötvar kostina við þetta frábæra hlaupasport.

Kostir náttúruhlaups

• Allir kostir þess að skokka og hreyfa þig

• Hreint og tært loft, enginn útblástur, ekkert svifryk

• Hægt að njóta náttúru og landslags um leið og hlaupið er

• Aukin fjölbreytni í hlaupaleiðum

• Áfangastaðirnir verða markmið í sjálfu sér, ekki bara bið eftir næsta hlaupi

• Reynir á fleiri þætti fótaburðar og úthalds

• Mýkra undirlag reynir minna á liði en hörð gata eða gangstétt

• Engir bílar, ekkert malbik, engin steypa

• Friðsæl náttúran eflir andann jafnt og líkamann

Andleg áhrif náttúruhlaups

Það er ekki að ástæðulausu að hlaup er vinsæl leið til að hreyfa sig. Auk líkamlegra ávinninga, geta hlaupin haft einstaklega góð áhrif á andann. Margir gleyma sér í upplifuninni, ná að slaka á og hugsa skýrt. Þannig hafa ófáar hugmyndir og lausnir við vandarmálum kviknað á hlaupum. Fólk snýr aftur, endurnært á líkama og sál, tilbúið til að takast á við lífið með nýjum eldmóð. Ekki þekkja allir þó þessi jákvæðu áhrif. Sumir pína sig til að hlaupa og er fegnastir þegar því er lokið. Malbik, bílaumferð og mengun ýta síður en svo undir hugleiðslu áhrif hlaups. Hvað þá að hlaupa á bretti í líkamsræktarstöð og glápa á tónlistarmyndbönd. En að hlaupa í náttúrunni kallar fram þessi áhrif eins og ekkert annað. Enda eru hljóð úr náttúrunni notuð óspart til að skapa andrúmsloft slökunnar og hugleiðslu.

Hlaupið verður ævintýri líkast

Það er fátt skemmtilegra en að kanna og uppgötva nýjar leiðir í náttúrunni. Það er gaman að leyfa forvitninni að leiða sig áfram, fara út af leið til þess að kanna hvert einhver slóði liggur. Stundum uppgötvar maður óvænt fallegan foss eða huggulega laut. Þá er upplagt að stoppa í smá stund, fá sér vatnssopa og jafnvel narta í eitthvað á meðan maður nýtur þessarar óvæntu náttúruperlu.

Náttúruhlauparar ná að skanna stærra svæði en fótgangadi fólk og sjá fegurð í náttúrunni sem aðrir missa af. Auðvelt er að gleyma sér á hlaupunum í svona ævintýri og áður en maður veit af er maður gjarnan búinn að hlaupa lengri veglengd en maður taldi sig ráða við og á erfitt með að trúa að maður hafi verið í burtu svo lengi.

Búnaður

Sími/GPS úr

Það er gaman að uppgötva nýjar leiðir og bara hluti af sjarmanum að villast aðeins. En það er ekki æskilegt að týnast! Þess vegna er ráðlegt að hafa GPS hlaupaúr eða smartsíma til að hjálpa til við rötun. Einnig eru þetta skemmtilega tæki þar sem hægt er að sjá og skrá alls konar upplýsingar eins og vegalengd, hraða, hæð o.fl. Síðan er hægt að skoða leiðina sem farið var eftir á korti í tölvu.

Sím I er einnig nauðsynlegur sem öryggistæki ef maður villist, slasar sig eða einfaldlega gleymir sér á hlaupunum og þarf að láta vita að manni seinkar. Skiptir þá engu hvort um “hefðbundnan” gsm síma er að ræða eða smartsíma. En þeir sem ekki hafa GPS-úr, græða mikið á því að vera með smartsíma varðandi rötun og skráningu upplýsinga. Flestum nægir smartsími þó GPS úrin hafi ákveðna kosti umfram símana. Úrin eru fyrirferðaminni og veðurþolnari, GPS skráningin er aðeins nákvæmari og sum úr eru með mun betri batterísendingu en símarnir svo einhverjir þættir séu nefndir. Símarnir eru hins vegar með betri skjá og meiri kortamöguleika. Auk þess er náttúrulega hægt að taka myndir og hringja úr þeim! Mikilvægt er að hlaupa með símana í vatnsheldu hulstri til að tækið verði ekki fyrir rakaskemmdum. Alls konar útgáfur eru til, bæði högg og vatnsheld hulstur, armbönd með plastvasa o.fl. Einnig má bjarga sér með því að setja símann einfaldlega í glæran plastpoka og binda fyrir. Ýmis forrit eru til sem halda utan um hlaupin og uppýsingar þeim tengdum. Má þar t.d. nefna Strava, Runkeeper og Mapmyrun.

Skór

Æskilegt er að hlaupa í skóm sem eru sérstaklega hannaðir til að hlaupa í náttúrunni. Þeir nefnast gjarnan utanvega hlaupskór (e. trail running shoes). En við kjósum að kalla þá náttúruhlaupaskó. Eins og með götuskó eru þeir til í alls konar útgáfum, alveg frá því að líkja sem mest eftir því að hlaupa berfættur í það að vera miklir skór með hámarks stuðningi, vörn og dempun. En það eru nokkrir hlutir sem almennt aðgreina náttúruhlaupaskó frá götuskóm. Þar má helst nefna:

Betra grip: Grófari sóli sem rennur síður í drullu, snjó og möl.

Meiri vörn: Í kringum tær er yfirleitt slitsterkt efni sem verndar ef maður skyldi reka fótinn í grjót eða trjárót. Einnig er oft plata í skónum eða skórinn þannig úr garð gerður að maður finnur minna fyrir beittu grjóti.

Minni dempun: Það eru vissulega til náttúruhlaupaskór með miklilli dempun en hún er þá ekki eins mjúk og dempunin í götumskóm. Ástæðan er sú að í náttúruhlaupum er jarðvegurinn yfirleitt mýkri en í götuhlaupum og því er minni þörf á mjúkri dempun.

Lægri skór: Í náttúruhlaupum er allskonar undirlag og það er ekki endilega sérstaklega slétt. Háir skór með mjúkri dempun draga úr krafti í mjúku undirlagi og eykur hættu á að fólk misstígi sig. Þó eru til háir skór ætlaðir í náttúruhlaup en þeir eru þá með stífum veltisóla.

Fljótir að þorna: Í náttúrunni blotna skor oftar en á malbiki. Þá er mikilvægt að skórnir drekki ekki í sig vatnið heldur eru fljótir að losa sig við þá. Sumir náttúruskór eru vatnsþéttir en ágæti þess er umdeild. Ókosturinn er sá að ef vatn á annað borð kemst inn í skóna, losnar maður ekki svo auðveldlega við það.

Fatnaður

Hlaupafatnaður í náttúruhlaupum er sá sami og í götuhlaupum. Ráðlegt er að vera í gerviefni frekar en bómul þar sem hann drekkur í sig svita og vatn. Fyrir vikið er hætt við að maður verði blautur og kaldur auk þess sem bómullinn þyngist meira þegar hann blotnar. Þunnar ullarflíkur virka líka vel fyrir þá sem kunna við ullina. Gott er einnig að hafa jakka sem er að miklu leyti vind og vatnsþéttur, þunna húfu eða buff og vettlinga.

Vatn og bakpokar

Í lengri “ævintýraferðum” er nauðsynlegt að hafa vatn með sér. Til eru alls konar lausnir og þarf hver að finna út hvað hentar best. Hér á landi hafa belti um mittið með nokkrum litlum flöskum verið algengasta lausnin. Handheldar flöskur sem eru þannig hannaðar að þær eru hálf-fastar við hendina hentar öðrum betur. Loks eru til vesti og bakpokar sem liggja þétt að líkamanum. Vatnið er þá geymt í mjúkum plastílátum með röri sem auðvelt er að nálgast og drekka þannig vatnið. Kosturinn við þessa bakpoka er að hægt er að hafa með tiltölulega mikið vatnsmagn og auk þess má geyma síma, aukaflík, nesti og eitthvað slíkt í bakpokanum.

Annar búnaður

• Sokkar: Ekki gerir mikið gagn að vera í skóm sem eru snöggir að losa vatn ef maður er í þykkum bómullasokkum sem drekka í sig vatn. Sokkar þurfa að vera úr gerviefni. Það er smekksatriði hvort þeir séu þunnir eða þykkir. Sumir vilja meira að segja hlaupa sokkalausir. Þrýstisokkar (.e compression socks) ná yfir kálfa og sitja þétt. Þeir eiga m.a. að hjálpa til við blóðflæði, draga úr bólgum og þrota og veita vöðvum aðhald þannig að þeir hristist síður við hlaupin. Þrýstisokkar eru ekki nauðsynlegir en hafa reynst mörgum vel t.d. við þreytu í kálfum og beinhimnabólgu.

• Lágar legghlifar: Ná rétt yfir ökkla og fara yfir skó. Eru yfirleitt úr mjúku gerviefni og eiga að koma í veg fyrir að möl og sandur fari inn í skóna. Ekki nauðsynlegur búnaður en getur komið sig mjög vel þegar hlaupið er í aðstæðum þar sem er mikil möl eða sandur.

• Sólgleraugu: Það er alltaf gott að vernda augun í mikilli sól. Hægt er að kaupa sólgleraugu sem eru hönnuð með hlaup og aðra hreyfingu í huga. Þau eru létt og fyrirferðalítil. En sumir sætta sig við bensínstöðvar sólgleraugun og enn aðrir vilja alls ekki hlaupa með sólgleraugu.

Nokkur ráð fyrir náttúruhlaupara

• Hafðu augun á slóðinni Á malbiki hreyfast fætur nánast eins í hverju skrefi en í náttúruhlaupi getur maður alltaf átt von á trjárót, steinhnullungi, óvæntri hækkun eða lækkun eða krappri beygju. Auðvelt er að reka fótinn í og detta ef athyglin er ekki á réttum stað, sérstaklega þegar þreytan sækir að.

• Hafðu gott bil á milli þín og manninum á undan. Hér gilda önnur lögmál en á malbiki! Gott er að hafa um 3-5 metra á milli manna. Þannig sérð þú alltaf hvað leynist á slóðinni og getur brugðist við grjótum og öðru slíku. Ef manneskjan á undan þér hrasar, sleppur þú við áreksturinn.

• Ekki slá metið þitt. Í náttúrunni gilda önnur lögmál varðandi tímatöku en á malbiki. Vegna þess hversu fjölbreyttar og mis erfiðar yfirferðar leiðirnar eru, er óraunhæft að bera tíma þína saman við sömu vegalengdir í götuhlaupum. Það er ekki einu sinni hægt að bera mismunandi utanvega leiðir saman því að þó vegalendin sé hin sama, kann erfiðleikastigið að vera allt annað.

• Gangtu upp í móti! Í bröttum brekkum er engin skömm að því að ganga. Þvert á móti gera allir það á einhverjum tímapunkti í fjallahlaupum og margir hafa þá reglu að ganga upp allt sem er upp á móti. Með því að ganga rösklega upp, nota þú vöðvana öðruvísi og því er þetta viss hvíld. Þar að auki eru góðar líkur á að þú farir jafn hratt og jafnvel hraðar þannig heldur en að þrjóskast við að hlaupa upp brattann.

• Njóttu upplifunarinnar! Ekkert jafnast á við að hlaupa í náttúrunni. Ekki missa af upplifuninni heldur vertu til staðar og njóttu þess! Hlustaðu á fuglasönginn, njóttu útsýnisins, andaðu að þér ferska loftinu og finndu gleðina í því að þræða stígana og finna ný ævintýri í stað þess að þramma á hörðu malbikinu. Heyrnartólin er nauðsynleg ef þú hleypur á hlaupabretti en þeirra gerist ekki þörf í náttúrunni.