Fatnaður og búnaður
fyrir hlaupara

Það er gaman að uppgötva nýjar leiðir og bara hluti af sjarmanum að villast aðeins. Góður búnaður getur gert góð hlaup enn betri og öruggari!

Sími/GPS úr

Þess vegna er ráðlegt að hafa GPS hlaupaúr eða smartsíma til að hjálpa til við rötun. Einnig eru þetta skemmtileg tæki þar sem hægt er að sjá og skrá alls konar upplýsingar eins og vegalengd, hraða, hæð o.fl. Síðan er hægt að skoða leiðina sem farin var eftir á korti í tölvu. Sími er einnig nauðsynlegur sem öryggistæki ef maður villist, slasar sig eða einfaldlega gleymir sér á hlaupunum og þarf að láta vita að manni seinkar. Skiptir þá engu hvort um „hefðbundinn” gsm síma er að ræða eða smartsíma. En þeir sem ekki hafa GPS-úr, græða mikið á því að vera með smartsíma varðandi rötun og skráningu upplýsinga. Flestum nægir smartsími þó GPS-úrin hafi ákveðna kosti umfram símana.

Úrin eru fyrirferðaminni og veðurþolnari, GPS skráningin er aðeins nákvæmari og sum úr eru með mun betri batterísendingu en símarnir svo einhverjir þættir séu nefndir. Símarnir eru hins vegar með betri skjá og meiri kortamöguleika. Auk þess er náttúrulega hægt að taka myndir og hringja úr þeim! Mikilvægt er að hlaupa með símana í vatnsheldu hulstri til að tækið verði ekki fyrir rakaskemmdum. Alls konar útgáfur eru til, bæði högg- og vatnsheld hulstur, armbönd með plastvasa o.fl. Einnig má bjarga sér með því að setja símann einfaldlega í glæran plastpoka og binda fyrir. Ýmis forrit eru til sem halda utan um hlaupin og upplýsingar þeim tengdum. Má þar t.d. nefna Strava, Runkeeper og Mapmyrun.

Skór

Æskilegt er að hlaupa í skóm sem eru sérstaklega hannaðir til að hlaupa í náttúrunni. Þeir nefnast gjarnan utanvega hlaupskór (e. trail running shoes). En við kjósum að kalla þá náttúruhlaupaskó.

Eins og með götuskó eru þeir til í alls konar útgáfum, alveg frá því að líkja sem mest eftir því að hlaupa berfættur í það að vera miklir skór með hámarks stuðningi, vörn og dempun. En það eru nokkrir hlutir sem almennt aðgreina náttúruhlaupaskó frá götuskóm. Þar má helst nefna:

  • Betra grip: Grófari sóli sem rennur síður í drullu, snjó og möl.
  • Meiri vörn: Í kringum tær er yfirleitt slitsterkt efni sem verndar ef maður skyldi reka fótinn í grjót eða trjárót. Einnig er oft plata í skónum eða skórinn þannig úr garð gerður að maður finnur minna fyrir beittu grjóti.
  • Minni dempun: Það eru vissulega til náttúruhlaupaskór með miklilli dempun en hún er þá ekki eins mjúk og dempunin í götumskóm. Ástæðan er sú að í náttúruhlaupum er jarðvegurinn yfirleitt mýkri en í götuhlaupum og því er minni þörf á mjúkri dempun.
  • Lægri skór: Í náttúruhlaupum er allskonar undirlag og það er ekki endilega sérstaklega slétt. Háir skór með mjúkri dempun draga úr krafti í mjúku undirlagi og eykur hættu á að fólk misstígi sig. Þó eru til háir skór ætlaðir í náttúruhlaup en þeir eru þá með stífum veltisóla.
  • Fljótir að þorna: Í náttúrunni blotna skór oftar en á malbiki. Þá er mikilvægt að skórnir drekki ekki í sig vatnið heldur eru fljótir að losa sig við þá. Sumir náttúruskór eru vatnsþéttir en ágæti þess er umdeilt. Ókosturinn er sá að ef vatn á annað borð kemst inn í skóna, losnar maður ekki svo auðveldlega við það.

Fatnaður

Hlaupafatnaður í náttúruhlaupum er sá sami og í götuhlaupum. Ráðlegt er að vera í gerviefni frekar en bómul þar sem hann drekkur í sig svita og vatn. Fyrir vikið er hætt við að maður verði blautur og kaldur auk þess sem bómullinn þyngist meira þegar hann blotnar. Þunnar ullarflíkur virka líka vel fyrir þá sem kunna við ullina. Gott er einnig að hafa jakka sem er að miklu leyti vind- og vatnsþéttur, þunna húfu eða buff og vettlinga.

Vatn og bakpokar

Í lengri „ævintýraferðum“ er nauðsynlegt að hafa vatn með sér. Til eru alls konar lausnir og þarf hver að finna út hvað hentar best. Hér á landi hafa belti um mittið með nokkrum litlum flöskum verið algengasta lausnin. Handheldar flöskur, sem eru þannig hannaðar að þær eru hálf-fastar við hendina, hentar öðrum betur.

Loks eru til vesti og bakpokar sem liggja þétt að líkamanum. Vatnið er þá geymt í mjúkum plastílátum með röri sem auðvelt er að nálgast og drekka þannig vatnið. Kosturinn við þessa bakpoka er að hægt er að hafa tiltölulega mikið vatnsmagn og auk þess má geyma síma, aukaflík, nesti og eitthvað slíkt í bakpokanum.

Annar búnaður

  • Sokkar: Ekki gerir mikið gagn að vera í skóm sem eru snöggir að losa vatn ef maður er í þykkum bómullasokkum sem drekka í sig vatn. Sokkar þurfa að vera úr gerviefni. Það er smekksatriði hvort þeir séu þunnir eða þykkir. Sumir vilja meira að segja hlaupa sokkalausir. Þrýstisokkar (e. compression socks) ná yfir kálfa og sitja þétt. Þeir eiga m.a. að hjálpa til við blóðflæði, draga úr bólgum og þrota og veita vöðvum aðhald þannig að þeir hristist síður við hlaupin. Þrýstisokkar eru ekki nauðsynlegir en hafa reynst mörgum vel t.d. við þreytu í kálfum og beinhimnabólgu.
  • Lágar legghlifar: Ná rétt yfir ökkla og fara yfir skó. Eru yfirleitt úr mjúku gerviefni og eiga að koma í veg fyrir að möl og sandur fari inn í skóna. Ekki nauðsynlegur búnaður en getur komið sér mjög vel þegar hlaupið er í aðstæðum þar sem er mikil möl eða sandur.
  • Sólgleraugu: Það er alltaf gott að vernda augun í mikilli sól. Hægt er að kaupa sólgleraugu sem eru hönnuð með hlaup og aðra hreyfingu í huga. Þau eru létt og fyrirferðalítil. En sumir sætta sig við bensínstöðvar sólgleraugun og enn aðrir vilja alls ekki hlaupa með sólgleraugu.