Námskeið

Væri hægt að setja upp vínrauðan og/eða svartan hóp sem fer lengra?

Laugardagsæfingar hlaupasamfélagsins eru þannig hugsaðar að allir fái 1.5-2.5 klst hlaup/hreyfingu burtséð frá hvaða vegalend hentar þeim/hversu langt þeir fara á þessum tíma. Allir eiga því að fá svipaðan tíma á fótum út úr æfingunni. Það er ekki á stefnuskránni að búa til hóp sem fer lengra sem hluti af hlaupasamfélaginu. Slíkur hópur yrði alltaf viðbót.
Hins vegar má auka vegalendina með því að fara sjálf/ur auka hring fyrir eða eftir æfinguna og hafa sumir gert það. Það er velkomið að spyrja á FaceBook síðunni hvort fleiri vilji taka þátt í því en það yrði þá að sjálfsögðu á eigin ábyrgð.

Búnaður

Hvernig búnað þarf ég að eiga til að geta skráð mig í NH?

Góða hlaupaskó, þægileg íþróttaföt, vindjakka, húfu og vettlinga. Á veturnar er skylda að eiga höfuðljós og hlaupabrodda (t.d frá Kahtoola).Hvernig hlaupaskó þarf ég? Er nóg að vera í venjulegum íþróttaskóm? 

Venjulegir íþróttaskór duga en við mælum með því að fólk fjárfesti í utanvegahlaupaskóm. Utanvegaskór eru hannaðir til að veita góða vörn fyrir fæturnar og grípa betur á t.d blautum steinum eða í lausamöl.Mælið þið með hlaupabeltum eða hlaupabakpokum? 

Í raun er það mjög einstaklingsbundið hvort að fólki finnist þægilegra að hlaupa með belti eða bakpoka. Svona heilt yfir þá er í styttri hlaupum í góðu veðri nóg að vera með hlaupabelti en í vetrarhlaupum er gott að hafa hlaupabakpoka og geyma þá auka húfu og vettlinga ásamt einhverri orku í pokanum.Hve mörg gel þarf ég að mæta með á laugardagsæfingar?

Það þarf ekki að mæta með gel á laugardagsæfingar þó það geti verið ágætt að hafa með sér eitt gel eða aðra orku (t.d súkkulaði eða þurrkaða ávexti).

Rafrænt

Hvernig nálgast ég kvittun?

Inn á natturuhlaup.felog.is má nálgast rafræna kvittun sem stéttafélögin taka gilda. Nauðsynlegt er að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Síðan er farið í “iðkandi” og í „eldri skráningar“ en þar má prenta kvittunina út eða senda hana með tölvupósti. Athugið að kvittunin uppfærist sjálfkrafa með hverri greiðslu þannig að þú verður að „safna“ upp í þá upphæð sem þú þarft að nota. Ef þú lendir í vandræðum má finna hér leiðbeiningarmyndband um hvernig nálgast megi greiðslukvittanir. Einnig má finna þetta myndband undir media inni á FaceBook hópi hlaupasamfélagsins. Athugðið að ef skráning fór fram í gegnum Sportabler þá má finna kvittun þar.Ég fæ ekki boð (invites) á viðburðina (events) á FB síðu hlaupasamfélagsins. Er hægt að kippa því í lag?

Ástæðan er sú að Facebook hættir að senda boð þegar hópurinn er orðinn ákveðið stór og/eða  þegar ákveðið hlutfall af þeim sem boðið er á viðburðinn bregðast ekki við með því að láta vita hvort þeir komi eða ekki. Þetta gerir Facebook til að koma í veg fyrir ruslpósta. Því miður höfum við enga stjórn á þessu. Hins vegar ert þú vonandi að fá upplýsingapóstana í hverri viku og svo er bara að fara inn á viðburðasíðuna á Facebook síðunni okkar og þar má sjá viðburðina og hægt að merkja við hvort þú ætlir að mæta.

Annað

Eru hundar leyfðir í hlaupasamfélaginu?

Við hvetjum ekki til þess, nei. Það hefur þó gerst að fólk hafi tekið hunda með. Við segjum ekkert við því svo framanlega sem:

  1. Enginn þátttakandi mótmælir veru hundsins. Ef það gerist, verður eigandinn beðinn um að hætta að koma með hundinn (Hver sem er getur beðið okkur um það og fullrar nafnleyndar er gætt)
  2. Hundurinn er vel upp alinn, hlýðinn, ekki ógnandi og er ekki að skipta sér af öðrum þátttakendum
  3. Hundurinn sé í bandi allan tímann
  4. Eigandi tekur upp eftir hundinn þegar hann gerir þarfir sínar

Við elskum hunda og skiljum vel að hundaeigendur vilji hafa þá með en hlaupasamfélagið er ekki hugsað fyrir þá og því má hundurinn ekki trufla aðra þátttakendur. Sem dæmi eru sumir hræddir við hunda, aðrir með hundaofnæmi og slíkar þarfir ganga fyrir.

Smelltu hér til að senda inn nýja spurningu.