Hálkuvörn fyrir hlaupara (Broddar, naglar, gormar)
Hálkuvörn er mikilvægasta öryggisatriðið í vetrarhlaupum. Ef minnsti grunur er um hálkubletti, borgar það sig að nota hálkuvörn. Það þarf aðeins einn lúmskan hálkublett til að valda stórslysi. Mörg dæmi er um að hlauparar meiðist þannig alvarlega. Heilahristingur, beinbrot og bakmeiðsli eru dæmi um afleiðingar.
Hvernig hálkuvörn hentar í náttúruhlaup (utanvegahlaup)?
Ekki dugar að nota hvað sem er. Velja þarf viðeigandi hálkuvörn miðað við færð og aðstæður. Í lang flestum tilvikum ættu hlaupabroddar sem hannaðir eru fyrir náttúruhlaup (utanvegahlaup) að duga. Dæmi um þá eru Kahtoola Exospikes. Undantekkningin er fjalllendi þar sem klaki er mikill og ójafn, þá þarf öflugri brodda.
Broddar hannaðir fyrir götuhlaup eins og Kahtoola Nanospikes, eru þægilegri í götuhlaupum og duga upp að vissu marki á stígum en ekki eins vel og utanvegahlaupabroddar.
Óásættanleg hálkuvörn fyrir hlaupara
Ódýrir hálkubroddar úr þunnu gúmmíi með tökkum eða -gormar duga yfirleitt ekki á hæðóttum leiðum. Hvoru tveggja er óásættanlegt við hlaup á náttúrustígum í hálku. Þeir endast einnig illa enda ekki hannaðir í slík hlaup. Gormar duga þó vel í götuhlaupum.
Hlaup á fjöllum í hálku
Þegar hlaupið er í fjalllendi að vetri til duga oft ekki broddar með nöglum og nauðsynlegt að hafa brodda með keðju og lengri göddum eða jafnvel fjallgöngu/-klifurbrodda (ásamt ísexi).
Tegundir hálkuvarna á skóm
Broddar
Hálkubroddar
Hálkubroddar (t.d úr Bónus) henta ekki til Náttúruhlaupa. Þeir losna hratt af og veita lítið grip, sérstaklega á hörðum klaka og í halla.
Hlaupabroddar
Hlaupabroddar (t.d Kahtoola Nanospikes) henta vel til Náttúruhlaupa á beinum stígum þar sem eru hálkublettir eða þunnur klaki/harður snjór. Þeir henta ekki vel til Náttúruhlaupa í bratta, á fjöllum eða miklum hörðum klaka.
Utanvegahlaupabroddar (t.d Kahtoola Exospikes) henta vel til Náttúruhlaupa í hæðóttu landslagi og þar sem er mikill klaki eða harður snjór.
Fjallahlaupabroddar
Fjallahlaupabroddar (svokallaðir Esjubroddar, t.d. Kahtoola Microspikes) henta vel til Náttúruhlaupa í fjalllendi og einnig á miklum hörðum klaka t.d í Heiðmörk. Þá skal EKKI nota í hliðarhalla þar sem þeir geta runnið af skónum.
Fjallabroddar
Fjallabroddar henta mjög illa til Náttúruhlaupa en vel til fjallamennsku t.d í hliðarhalla.
Negldir hlaupaskór
Hægt er að kaups skó með nöglum eins og t.d. Icebug eða negla skóna sjálfur. Kosturinn er ekki þarf að setja brodda á sig. Ókosturinn er að maður tekur naglana ekki auðveldlega af.
Einnig er algengt að naglarnir detta úr skónum í náttúruhlaupum hafi maður sjálfur neglt skóna. Naglarnir detta ekki af skóm sem keyptir eru með nöglum og henta vel bæði á malbiki og í náttúrunni. Naglarnir eru þó missgóðir og grípa misvel eftir tegundum.