Leiðin um Fimmvörðuháls er ein fegursta og vinsælasta gönguleið landsins. Hún er ekki síður skmemmtileg náttúruhlaupaleið. Frá Skógum liggur leiðin meðfram Skógá þar sem ótal fossar blasa við, hverjum öðrum fallegri. Farið er yfir göngubrú, áin yfirgefin og farið austari leiðina meðfram akveginum og framhjá Balvinsskála. Þar verður drykkjarstöð. Nú er mesta hækkunin að baki en heildarhækkun er um 1000 m.
Næst er hlaupið um 3 km um Fimmvörðuhálsinn sjálfan þar til komið að Goðahrauni sem rann í eldgosinu árið 2010 úr gígunum, Magna og Móða. Hlaupið er í gegnum Goðahraun, framhjá gígunum. Fljótlega eftir Goðahraun hefst lækkunin. Farið er niður Bröttufönn og síðan Heljarkamb. Þar eru keðjur til stuðnings stuttan spotta og þarf að fara varlega. Leiðin er þó vel fær, jafnvel fyrir lofthrædda. Við tekur Morinsheiðin sem er flöt og þægileg að hlaupa. Þar eftir heldur lækkunin áfram og fljótlega er hlaupið yfir Kattahryggi. Þar þarf að taka tillit og fara varlega en sumir verða lofthræddir. Lækkunin heldur áfram niður í Strákagil. Þaðan er hlaupið tiltölulega þægilega leið framhjá Básum, göngubrúna yfir Krossá og að Volcano Huts í Húsadal.