Varðandi áhrif Covid-19 á starfsemi Náttúruhlaupa

Kæru þátttakendur og áskrifendur og aðrir velunnarar Náttúruhlaupa,

Líkt og margir í þjóðfélaginu þá höfum við í Náttúruhlaupum áhyggjur af þeirri óvissu sem ríkir vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar. Okkur er mjög annt um heilsu og líðan þátttakenda  og munum fylgjast vel með þróun mála.

Nú hefur verið sett samkomubann frá og með 15. mars og stendur yfir í 4 vikur. Um er að ræða samkomur þar sem fleiri en 100 manns koma saman.

Við teljum óhætt að halda æfingar og námskeið í nánast óbreyttri mynd en í stað þess að heilsast í upphafi eða lok æfingar með handabandi eða faðmlagi þá munum einungis heilsa úr hæfilegri fjarlægð (2-3m). Einnig þarf að vera a.m.k. 2 metra bil á milli hlaupara á stígunum. Við biðjum þátttakendur sem finna fyrir einhvers konar flensu/kvefeinkennum að halda sig heima og sleppa því að mæta á æfingar. Það á einnig við um einkennalaust fólk sem er í sóttkví, að mæta alls ekki á sameiginlegar æfingar.

Heildarfjöldi þátttakenda á námskeiðum/æfingum er í kringum 60 og þess vegna er okkur óhætt að halda sameiginlegum æfingum áfram. Einnig verður hópum skipt upp í smærri hópa á upplifunaræfingum og á öðrum æfingum eftir þörfum. Við gerum ráð fyrir að kynningar- og fræðslukvöld verði haldin með fjarbúnaðarsniði. Nánar um það síðar.

Við teljum það mikinn kost að geta stundað hreyfingu úti í náttúrunni á þessum tímum. Það er mikilvægt að huga að heilsunni og náttúruhlaup hafa bæði jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu.

Vonandi batnar ástandið sem fyrst og að þetta muni ekki hafa nein veruleg áhrif á þátttöku okkar í Náttúruhlaupunum eða á vor- og Laugavegsnámskeiðin sem hefjast eftir páska. Ef staðan breytist fyrir þann tíma þá munum við meta stöðuna og tilkynna um leið hvaða breytingar við teljum þarft að gera. Skráning á grunnnámskeiðið sem hefst 18. apríl gengur vel og er að verða uppselt.

Engar breytingar eru á hlaupaferðum á vegum Arctic Running og Náttúruhlaupa eins og stendur. Þátttakendur verða upplýstir um leið og eitthvað breytist varðandi einstaka ferðir.

Við þökkum ykkur kærlega fyrir skilninginn og vonum að við getum öll hjálpast að til að halda áfram að stunda okkar áhugamál saman eins og kostur er.

Fyrir hönd Arctic Running, Náttúruhlaupa og leiðtogateymisins,

Birkir Már Kristinsson, Elísabet Margeirsdóttir og Helga María Heiðarsdóttir