Cinque Terre I
Þessi geysivinsæla ferð kemur í tveimur útgáfum 2024, Cinque Terre I er með 7-15 km dagleiðum en einnig er í boði Cinque Terre II með 15 – 25 km dagleiðum. Dagskráin er að öðru leyti eins. Ferðast verður með okkar rútu frá flugvelli Milano að Monterosso al Mare. Þar verða höfuðstöðvar okkar þegar við flökkum um þetta stórkostlega svæði, Cinque Terre.
Cinque Terre eða Þorpin fimm, eru afskekkt sjávarþorp í Ítölskum þjóðgarði og eru á heimsminjaskrá UNESCO. Þorpin urðu vinsæll ferðamannastaður eftir að þau urðu aðgengileg með lestum á 20. öldinni. Þorpin eru þekkt fyrir ótrúlega fegurð og eru fullkominn áfangastaður fyrir göngu- og hlaupaferðir. Svo má ekki gleyma að Ítalir eru þekktir fyrir góðan mat og frábæran ís. Meðalhiti í maí eru 18°C, fullkomið hlaupaveður!
Cinque Terre I
starts after
Hreyfing og fegurð
- Markmið ferðarinnar er að njóta þess að hreyfa sig í fallegri náttúru. Dagleiðirnar verða á bilinu 7-15 km í fjöllum í þessari ferð en 15-25 km í CT II. Lengstu dagleiðunum er yfirleitt skipt í tvennt þar sem hægt er að fá sér hádegismat og skoða sig um áður en haldið er áfram. Einnig verður í boði að stytta lengstu dagleiðirnar án þess að missa af þorpunum.
- Allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
- Við gistum í bænum Monterosso al Mare, huggulegum sjávarbæ. Hótelið er nálægt lestarstöðinni, en lestarferðir verða mikið nýttar.
- Stefnt er að því að hlaupa alla dagana nema einn, en þá verður hægt að komast á ströndina, versla eða fara í siglingar.

Umsagnir
Í fyrsta skiptið bjóðum við upp á tvær útgáfur af þessari vinsælu ferð. Þessi ferð (CT-I) fer aðeins styttri dagleiðir en hefðbundna ferðin og CT-II fer aðeins lengri dagsleiðir en hefðbunda ferðin.
Báðar ferðir eru opnar öllum en ársáskrifendur Hlaupasamfélags Náttúruhlaupa fá sérverð.
Cinque Terre I er hugsuð fyrir hægari og meðalhraða hlaupara ásamt vönu göngufólki. Farið verður 7-15 km dagleiðir og hækkun getur verið umtalsverð. Lagt er upp með að njóta og fara rólega yfir.
Miða má við að vera 2-5 klst á fótum á hverjum degi, en það verður mikið gengið þar sem um fjöll og mikilfenglegt landslag er að ræða. Gengið verður upp flest allar brekkur en hlaupið á jafnsléttu og niður á við.
Álagið er upplagt fyrir appelsínugula og vínaruða í hlaupasamfélagi Náttúruhlaupa og jafnvel gullgula eða og fólk sem hleypur reglulega 6-10 km eða vant göngufólk. Markmiðið er að njóta þess að hreyfa sig í góðu veðri í fallegri náttúru og því ætti enginn að verða útundan.
Hægt er að komast á hvern áfangastað með þægilegum opinberum samgöngum. Upplagt er því að taka t.d. maka með sem er ekki hlaupandi og hann getur hitt hópinn á áfangastað. Einnig má auðveldlega sleppa úr hlaupi einn og einn dag.
Fyrir hraðari hlaupara (hraðir vínrauðir og upp úr í hlaupasamfélaginu) bendum við á Cinque Terre II.
Ingvar og Ingibjörg á Cinque Terre svæðinu
Innifalið í verði:
- Gisting – 7 nætur í Monterosso al Mare
- Matur – Morgunmatur innifalinn alla daga Kvöldmatur á degi 2 og 7
- Allar samgöngur – fyrir utan flug
- Fararstjóri / leiðsögn allar leiðirnar
- Dagspassi í Cinque Terre (bara þennan eina dag sem við munum nota hann)
Ekki innifalið í verði:
- Flug til og frá Mílanó
- Hádegisverður, drykkir
- kvöldmatur (fyrir utan tvö kvöld).
Dagskrá: Ath. Breytingar geta orðið á dagskrá, hvað varðar lengd og uppröðun hlaupaleiða.
Hægt er að fá beint flug báðar leiðir með Icelandair sem við miðum ferðina út frá. Þeir sem vilja koma fyrr eða fara seinna og gera meira út úr fríinu geta gert það en allir þurfa að vera á flugvellinum í Mílanó þegar vélin frá Icelandair lendir síðdegis því þaðan fer okkar rúta með okkur til Monterosso al Mare þar sem við gistum allar 7 næturnar.
Hótelið í Monterosso al Mare býður ekki upp á kvöldverð en nokkrir huggulegir veitingastaðir eru í bænum. Fólk velur því sjálft hvar það borðar kvöldmat en þó verður sameiginlegur kvöldmatur á degi 2 og síðasta kvöldið.
Á degi 5 (15. maí) er hvíldardagur/frídagur. Hægt að fara á ströndina, versla, siglingar o.fl. Boðið verður upp á auka hlaup fyrir þá sem vilja.
Aðra daga að undanskildum ferðadögum er hlaupið/gengið á skemmtilegum stígum á þessu fallega svæði. Ferðast verður á milli staða með opinberum samgöngum (innifalið í verðinu).
Okkar rúta fer með okkur beint á flugvöllin í Mílanó síðasta daginn.