NÝ alpaferð með náttúruhlaupum

 

Ný og spennandi hlaupaferð með Elísabetu Margeirsdóttur um mögnuð fjallaskörð Alta Via 1 leiðarinnar í Aosta dalnum á Ítalíu. Farin verður hluti af hlaupaleið Tor des Géants keppninnar sem er haldin í september ár hvert. Útsýni til allra helstu fjallarisa alpanna: Mont Blanc, Monte Rosa, Matterhorn og Gran Paradiso!

Hlaupið hefst í austurhluta Aosta dalsins í bænum Gressoney-Saint-Jean. Hlaupaleiðin sem verður farin á sex dögum er samtals 130km löng og samanlögð hækkun er um 10.000 metrar. Hlaupið endar við rætur Mont Blanc í vestri í Courmayeur sem er vinsæll útivistar- og skíðabær. Oft er talað um Courmayeur sem sólríka bæinn við Mont Blanc (Monte Bianco). Þetta er ferð fyrir fólk sem elskar áskoranir og vill gleyma sér á fjöllum í heila viku. Gist verður í háum fjallaskálum allan tímann nema fyrstu og síðustu nóttina í Courmayeur.

  • Dagsetningar: 20.-27. júlí 2022 (Uppselt)
  • Lengd: 8 dagar (7 nætur)
  • Erfiðleikastig: Erfitt (>5 klst. á dag og lengsti dagur 10 klst.)
  • Hópastærð: 12
  • Verð: 254.000 kr. 
  • Verð fyrir áskrifendur í Náttúruhlaupum: 244.000 kr. 
  • Skráning opnar 6. desember
  • Fararstjóri: Elísabet Margeirsdóttir
  • Tengiliður/nánari upplýsingar: elisabet (a) natturuhlaup.is
  • Mælt er með því að bíða með að bóka flug þar til ferð hefur verið staðfest
20170801095336 IMG 2023
RifugioJeanBarmasse
20160822 081656

Hlaupaleiðin er mögnuð og verður gist í einstökum háfjallaskálum alla hlaupaferðina

Hlaupaferðin og -leiðin

Hlaupaferðin og -leiðin

Fyrirkomulag ferðarinnar er með öðru sniði en í TMB ferðunum. Hópurinn gistir á leiðinni í skálum sem standa hátt í fjallshlíðum og þarf því að ferðast með sama létta búnaðinn allan tímann. Ferðin er sniðin fyrir þá sem vilja njóta fjallalofts og -fegurðar í heila viku og á sama tíma takast á við eftirminnilega áskorun. 

Leiðin fer um Alta Via 1 leiðina og er um 130km löng með 10 þúsund metra hækkun. Hún er líklega þekktust meðal fjallahlaupurum fyrir að vera hluti af Tor des Géants hlaupakeppninni. Síðast liðin ár hefur Tor Dret hlaupið verið haldið á þessum síðasta hluta TdG leiðarinnar. 

Hlaupaleiðin er kennd við þekkta fjallarisa: Mont Blanc, Monte Rosa, Matterhorn og Gran Paradiso. Nafnið á keppninni passar einnig vel við hlaupaleiðina en það má segja að hún sé risastór en farið er upp langar brekkur og há fjallaskörð í stórbrotnu landslagi og þarf varla að taka það fram að útsýnið er mikilfenglegt allan tímann. 

carte2
Fyrir hverja er ferðin?

Ferðin hentar hlaupurum sem hafa reynslu af þjálfun fyrir lengri hlaup og vana fjallahlaupara. Hlauparar sem hafa hlaupið með silfurgráa hópnum í Hlaupasamfélagi Náttúruhlaupa ættu að ráða vel við ferðina með réttum undirbúningi. 

Ég stefni á að fara í fjallakeppni í sumar/haust. Hentar ferðin mér? Já! Ferðin er upplögð fyrir alla sem eru að stefna á lengri fjallahlaup. Frábært tækifæri til að þjálfa sig í að fara upp og niður langar brekkur í þynnra lofti. Heil vika við þessar aðstæður hefur mikið þjálfunargildi fyrir alla sem vilja bæta fjallahlaupaformið.

 

20170728134236 IMG 1824
Fararstjórn

Hópurinn mun njóta leiðsagnar Elísabetar Margeirsdóttur, en hún er þaulreyndur utanvegahlaupari og þekkir svæðið og aðstæður vel.

Elísabet mun veita öllum aðstoð við undirbúning í tengslum við þjálfun og búnað í aðdraganda ferðarinnar.

66 north fyrirlestur 01577 scaled
Hvað er innifalið?

Innifalið í verði: Fararstjórn, gisting í háfjallaskálum (5 nætur) og á hóteli (2 nætur), morgunverður alla daga og 5x kvöldverðir. Rútuferð til Gressoney á fyrsta hlaupadegi. Aðstoð við undirbúning í tengslum við þjálfun og búnað. 

Ekki innifalið í verði: Flug, akstur til og frá Courmayeur, kvöldverður á degi 1 og 7,  hádegissnarl, drykkir. Fararstjóri mun bóka hádegisverði í skálum/bæjum eða skipuleggja nestispásur eftir aðstæðum og þörfum hópsins.

20160822 134416 scaled
Dagskrá ferðarinnar
DSC 2108 scaled

Dagur 1 / Courmayeur

“The sunny side of Mont Blanc” 

Hópurinn hittist í útivistar- og skíðabænum Courmayeur á Ítalíu. Hægt er að fljúga með beinu flugi frá Íslandi til Genfar þann 20. júlí. Fararstjóri mun skipuleggja ferðalag frá flugvelli til Courmayeur fyrir þá sem vilja, hvort sem það verður með almenningssamgöngum eða einkaakstri. Hópurinn kemur sér fyrir á hóteli og fararstjóri mun fara yfir dagleiðir og aðstoða við lokaundirbúning. Mikilvægt að allt sé að mestu leyti klárt fyrir hlaupaferðina þegar komið er til Courmayeur.

 

20170728141303 IMG 1827

 

Dagur 2 / Courmayeur – Gressoney – Ferraro skálinn (2066m), 16km og +1650m/-1000m

Hópurinn þarf að vakna snemma og gera sig til fyrir brottför. Eftir morgunverð kl. 8:00 tekur við rútuferð til Gressoney þar sem hlaupið hefst. Fyrsti hluti leiðarinnar fer yfir Pinter skarðið (2776m) sem leiðir okkur yfir í Ayas dalinn. Næstu dagar bjóða upp á besta útsýnið yfir Monte Rosa og nálæga fjallagarða. Eftir lækkun í áttina til Champoluc endum við á að hlaupa á fallegum stíg í fjallshlíðinni og endum daginn í Ferraro skálanum þar sem við snæðum kvöldverð og gistum.

 

20170729090358 IMG 1880

Dagur 3 / Ferraro skálinn – Barmasse skálinn (2157m), 22km og +1800m/-1700m

Við höldum áfram að fylgja Alta Via 1 leiðinni og byrjum á að fara yfir Nana skarðið (2775m) á leið okkar yfir til bæjarins Valtournenche. Þar tökum við stutt hádegisstopp áður en við hækkum okkur aftur upp í gegnum skóg og að Barmasse skálanum sem stendur við Cignagna vatnið. Skálinn er talinn vera einn af flottari útsýnisskálum Alpanna.

20170730081323 IMG 1922

Dagur 4 / Barmasse skálinn – Cuney skálinn (2652m) 16km og +1260m/-775m

Þessi dagur býður uppá villt landslag og magnþrungið andrúmsloft. Við hlaupum nokkuð aflíðandi leið í mögnuðu landslagi og yfir þrjú fjallaskörð. Smám saman sést glitta í Matterhorn. Þetta verður eftirminnilegur dagur á krefjandi leið. Endum gott dagsverk í hinum flotta Cuney skála.

 

20170730092834 IMG 1956

 

Dagur 5 / Cuney skálinn – Champillon skálinn (2465m) 20km, +1457m/-1690m

Langur dagur framundan frá Cuney skála. Við leggjum mjög snemma af stað til að nýta daginn. Við höldum hæð til að byrja með og förum yfir tvö fjallaskörð áður en við byrjum að lækka okkur niður til þorpsins Oyace. Frá Oyace liggur leiðin yfir Brison skarðið til Ollomont þorpsins og þaðan höldum við áfram upp næsta fjall en munum stoppa rétt fyrir neðan Champillon skarðið og gistum í skemmtilegum skála sem ber sama nafn. 

 

 

20170801081025 IMG 2016

 

Dagur 6 / Champillon skálinn – Frassati skálinn (2540m) 26km, +1900m/-1760m

Við byrjum þennan dag snemma því það er nokkuð löng leið framundan. Hluti hennar er mjög hlaupanlegar. Eftir að við höfum farið yfir Champillon skarðið liggur leiðin til bæjarins St. Rémi en Bosses sem stendur nálægt Grand St. Bernhard skarðinu. Við höldum áfram inn dalinn og hækkum okkur upp í Frassati skálann sem stendur fyrir neðan hið fræga Malatra skarð.

 

 

20160822 134510 scaled

 

Dagur 7 / Frassati skálinn – Courmayeur, 20km, +670m/-1950m

Síðasti dagurinn og líklega einn sá flottasti í ferðinni. Við förum yfir Malatra skarðið og þar blasir við fjallið hvíta! Við tekur skemmtileg leið um villtan dal sem liggur inn á hina skemmtilegu “svalaleið” Ferret dalsins. Þaðan hlaupum við að Bertoni skálanum sem er síðasti hressingarskálinn á leiðinni áður en við hlaupum niður í gegnum skóginn og alla leiðina í miðbæ Courmayeur. Við förum á sama hótel og í upphafi ferðar þar sem aukafarangur okkar bíður. Hópurinn stefnir á að fara saman út að borða um kvöldið og fagna mögnuðu afreki.

 

 

20160822 140948 1 scaled

 

 

Dagur 8 / Courmayer – Ferðalag heim

Morgunverður á hóteli. Ferðalag heim. Fararstjóri mun skipuleggja ferðalag frá Courmayeur til Genfar flugvallar fyrir þá sem vilja, hvort sem það verður með almenningssamgöngum eða einkaakstri.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Náttúruveitan